• fim. 08. okt. 2020
  • A karla
  • Landslið

Ísland komið í úrslitaleik umspilsins fyrir EM 2020!

Ísland vann 2-1 sigur gegn Rúmeníu og er því komið í úrslitaleik gegn Ungverjalandi um sæti á EM 2020.

Ísland byrjaði leikinn af krafti og var með yfirhöndina í upphafi. Gylfi Þór Sigurðsson skoraði fyrsta mark leiksins á 17. mín með frábæru skoti við teiginn eftir gott spil við Jóhann Berg Guðmundsson. Frábærlega gert hjá Gylfa. Aðeins fimm mínútum síðar átti Gylfi aftur skot að marki, en í þetta skiptið varði Tatarusanu vel í marki Rúmena. Stuttu síðar var Alfreð Finnbogason nálægt því að skora eftir góða hornspyrnu Gylfa, en boltinn fór af varnarmanni Rúmena.

Alfreð kom svo boltanum í netið nokkrum mínútum síðar eftir frábæra stungusendingu Gylfa, en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Það var hins vegar engin rangstaða átta mínútum síðar þegar Alfreð kom boltanum í gegn á Gylfa sem setti boltann aftur í netið, aftur með vinstri. Staðan orðin 2-0. Lítið var um færi það sem eftir lifði fyrri hálfleiks og 2-0 forysta staðreynd í hálfleik.

Ísland byrjaði síðari hálfleikinn vel og strax eftir fjórar mínútur átti liðið frábæra sókn. Arnór, Alfreð og Jóhann Berg spiluðu vel sín á milli og endaði það með hornspyrnu. Ragnar Sigurðsson skallaði hornspyrnu Gylfa framhjá. Nokkuð jafnræði var með liðunum á þessum tímapunkti, en Rúmenar gerðu þrjár breytingar á sínu liði í hálfleik. Á 58. mínútu átti Ísland frábæra skyndisókn eftir hornspyrnu Rúmena. Guðlaugur Victor Pálsson hljóp þá nánast upp allan völlinn, kom boltanum fyrir á Arnór Ingvar Traustason en Tatarusanu varði vel.

Á 63. mínútu minnkuðu Rúmenar muninn af vítapunktinum, en þar var að verki Alexandru Maxim. Staðan því orðin 2-1. Rúmenar komu vel inn í leikinn eftir markið og voru betri aðilinn næstu mínútur. Á 74. mínútu átti Arnór Ingvi ágætt skot sem fór framhjá markinu. Stuttu síðar kom Kolbeinn Sigþórsson inn á fyrir Alfreð Finnbogason. Á 83. mínútu kom Rúnar Már Sigurjónsson inn á fyrir Jóhann Berg Guðmundsson. Tveimur mínútum síðar þurfti Kári Árnason að fara útaf vegna meiðsla og í hans stað kom Sverrir Ingi Ingason inn á.

Rúmenar settu mikla pressu á íslensku vörnina það sem eftir lifði leiks, en tókst ekki að brjóta vörn Íslands á bak aftur. 2-1 sigur staðreynd hjá strákunum okkar!

Ísland mætir Ungverjalandi í úrslitaleik umspilsins í Ungverjalandi 12. nóvember.